Deprecated: mysql_connect(): The mysql extension is deprecated and will be removed in the future: use mysqli or PDO instead in /storage/content/30/1008530/ferdafjordungur.is/public_html/open.db.php on line 30 Ferðafélagið Fjörðungur
Ferðafélagið Fjörðungur
Fjörðungur | Skálarnir | Leiðarlýsing | Myndir
Leiðarlýsing / Um Fjörður og Látraströnd /

1. áfangi: Grenivík-Þönglabakki  Um tvo kílómetra sunnan við Grenivík, rétt sunnan við Gljúfurá, þar sem heitir Hrísmór, liggur vegarslóði út af þjóðveginum, vandlega merktur: Hvalvatnsfjörður 27 km.
  Vegurinn hlykkjast fyrst upp Borgir og krækir suður fyrir Hesthól og upp með ánni Grýtu sem á upptök sín í Grýtuskál norðan Benediktskambs.
  Þegar komið er upp á Heiðarbrún er rétt að nema staðar og litast um. Þar er útsýn fögur yfir Höfðahverfi og Eyjafjörð allan. Í vestri sjást Grenivíkurfjall og Kaldbakur handan Sandfells sem er næst. Upp af Sandfelli rís Syðstihnjúkur, suðurendinn á fjallgarðinum vestan Leirdalsheiðar. Í austurátt eru Hnjúkar eins og bæjarburstir. Benediktskambur er ystur og minnstur úti við Grýtuskál, þá kemur Hraunhjúkur, síðan Grenishjallahnjúkur, Blámannshnjúkur, Lómatjarnarhnjúkur og Grundarhnúkur syðst. Ofan við Blámannshnjúk stendur Blámannshattur 1166 m hár. Eggin austur af honum heitir Skessuhryggur og nær upp í 1214 m hæð.
  Handan við Dalsmynni er annað sett af hnjúkum, Laufáshnjúkur næst og við hliðina á honum Nónhnjúkur eða Stórihnjúkur, þarnæst Gæsagilshnjúkur eða Kergislhnjhúkur. Vegurinn liggur austan við Gljúfurá á þeim hluta Leirdalsheiðar sem gangnamenn kalla Austurheiði eða Bakkaheiði. Vestan ár heitir Hvammsheiði út að Stóruklettagili, stundum nefnt Vesturheiði. Þar má enn greina hvar Höfðasel stóð til forna. Fyrsta á sem farið er yfir er Ytri-Grýta og ekki langt þar norðan við er Strjúgsá í Strjúgsgili. Þar fyrir utan heitir Grásteinsmór. Þar má sjá móta fyrir rústum gamalla selja, Innra- og Ytra-Bakkasels. Norðan við Grásteinsmó heita Sjónarhólar. Fyrir utan ysta sjónarhólslækinn má líta tóftir Grundarsels. Þá styttist í Gljúfurárvað þar sem brú er á Gljúfurá. Áin á upptök sín í Leirdal. Hann ber nafn af ljósum lit sem ekki er leir heldur líparít. Inn úr Leirdal gengur Þjófadalur til suðurs. Í fjallinu að vestan á móts við Gjúfurárvað er Stóruklettagil. Skálar þar utan við heita Smiðsgilsskálar.
  Fjallsöxlin sunnan við Leirdal heitir Leirdalsöxl (1054) en norðan við er Digrihnjúkur (934). Þar norðan við taka við Lambárstykki skorin sundur af fjórum Lambám og jafnmörgum Lambárskálum. Utan við Gljúfurárvað taka við Gljúfurárvaðsmýrar og ná út að vatnaskilum sem eru í um 300 m hæð. Þar heita Vatnsföll. Nokkru utan við Vatnsföll liggur vegurinn yfir Fanngil eða Snjógil sem er meira í ætt við grunna skoru en gil. Hlíðarnar þaðan út að Hávörðum heita Nautagrænur.
  Þegar kemur norður á Hávörður í um 330 m hæð opnast sýn út í Fjörður, Hvalvatnsfjörður blasir við augum. Til vinstri handar skagar lítill hnjúkur, Einbúi, út úr fjallgarðinum. Einbúagil er milli hans og Sveigsfjalls (942) sem er ysti hluti fjallgarðsins sem byrjaði við Syðstahnjúk. Handan Sveigsfjalls opnast Trölladalur, algeng leið Fjörðunga til Grenivíkur. Í norðaustri ber mest á myndarlegu fjalli, Lambárhnjúk (1027), utan við Ystu-Lambá. Norðan við hann er Þvergilshnjúkur og nær út að Jórunnarstaðaskál.
  Héðan hallar landinu niður Grenivíkurtungur. Þær afmarkast af tveimur ám, Austurá sem sameinar allar Lambárnar og rennur síðasta spölinn í Illagili áður en hún kemur saman við Vesturá neðan við Tungusporðinn. Vesturá kemur af Trölladal og er líka nefnd Gilsá þegar kemur hingað niður eftir. Eftir sameiningu hefur áin ýmis nöfn. Fjarðará eða Hvalvatnsfjarðará, og jafnvel Austurá allt til sjávar. Oft er talað um Gilsá út fyrir Jórunnarstaði og Tindaá þegar kemur út að Tindriðastöðum.
  Í Tungusporðinum stendur sæluhús í eigu Grýtubakkahrepps. Þar er góð aðstaða til gistingar og snyrting með vatnssalerni. Þannig aðstöðu hefur Grýtubakkahreppur einnig komið upp á Kaðalstöðum, Þönglabakka, Keflavík og Látrum. Sæluhúsið heitir Gil en bær með sama nafni stóð vestan við Fjarðará þar til fyrir rúmri öld.
  Frá sæluhúsinu á Gili er um tvær leiðir að velja. Að halda áfram eftir veginum, fyrst yfir nýja brú á Illagili, út Jórunnarstaðaafrétt alla leið út í Kaðalstaði og fara yfir Fjarðarána á göngubrúnni hjá Tindriðastöðum. Er þá annað hvort fylgt veginum út fyrir Kaðalstaði og farið þar þvert yfir Kaðalstaðaengið eða farið út af veginum innan við engið og gengið eftir gömlu reiðgötunum á austurbakka árinnar út að brú. Hinn kosturinn er að fara vestur yfir Gilsá og ganga sem leið liggur út Gilsafrétt. Hér verður þeirri leið lýst.
  Brú er á Gilsá rétt hjá sæluhúsinu. Ekki er nema nokkur hundruð metra gangur að bæjarrústum á Gili. Bærinn fór í eyði 1899. Síðustu ábúendur voru Theodór Friðriksson rithöfundur og foreldrar hans. Nokkurt tún er kringum bæinn og engi allgóð. Í góðu árferði þótti gott að búa með fé á Gili en fannfergi var þar oft óskaplegt og því entust fáir til að búa þar lengi í einu. Beint upp af Gili er Gilsskál, litlu sunnar er Fossvaðsskál og síðan Skeiðarvaðsskál, næst Þverdal sem gengur vestur úr Trölladal.
  Undirlendi vestan Fjarðarár en nálega ekkert út Gilsafréttina þar til kemur út fyrir Darra (748) fjallið sem yst er á fjallgarðinum. Göturnar liggja um gil og leiti og er hvergi mjög bratt eða erfitt yfirferðar. Ysta gilið og stærsta heitir Öldugil. Það nær ofan úr fjalli og niður að á þar sem heitir Nautavað. Hæðin norðan Öldugils heitir Alda. Austan ár á móts við Darra var býlið Jórunnarstaðir, sem hefur verið í eyði frá því um 1500 nema hvað búið var þar eitt ár 1811-1812. Í fjallinu þar ofan við er Jórunnarstaðaskál. Norðan við hana heitir fjallið Hnausafjall (809) Utan við Darra, um 5 km leið frá Gili, stóðu Kussungsstaðir. Þar var síðast búið 1904. Þar er landgott, tún og engjar til muna betri en á Þverá (1913) sem stóð nokkur hundruð metrum norðar og þótti heldur rýr jörð. Báðar þessar jarðir eru þó kallaðar kot í Jarðabók ÁM. Milli bæjanna rennur Þverá, allstraumþung en brúuð. Hún kemur úr þröngum dal milli Darra og Bollafjalls. Heitir hann Kussungsstaðadalur austan ár en Þverárdalur að vestan.
  Frá Þverá er ekki nema rúmur kílómetri að Tindriðastöðum. Þar bjuggu síðast Guðlaugur Jónsson og Hólmfríður Tómasdóttir. Þá voru aðeins tveir bæir aðrir eftir í byggð í Fjörðum; Botn og Þönglabakki. Húsfreyjur þar voru dætur þeirra Tindriðastaðahjóna. Þegar Guðlaugur lést árið 1944 brast síðasti hlekkurinn sem hélt við byggð í Fjörðum og allt fólk flutti þaðan sama ár.
  Hvalvatnsfjörður blasir allur við frá Tindriðastöðum og Hvalvatn úti við ósinn. Í Hvalvatn rennur Fjarðará (Austurá). Handan fjarðar er Bjarnarfjall (737 m) nyrst og sunnan við það Kaðaldalur. Fram úr Kaðaldal fellur áin Kaðla niður hjá bænum Kaðalstöðum (1933). Frá Kaðalstöðum liggja þrjár leiðir yfir á Flateyjardal. Hægt er að fara norðan í Bjarnarfjalli, svokallaðar Skriður eða upp úr Kaðaldalnum austan við kollinn á Bjarnarfjalli um Sandskarð. Þriðja leiðin liggur upp úr botni dalsins yfir svonefndar Jökulbrekkur. Fjallið sunnan við Kaðaldalinn heitir Hnausafjall og nær inn að Jórunnarstaðaskál eins og fyrr var getið. Við mynni Kaðaldals að norðan gengur stór melkollur út út Bjarnarfjallinu sem heitir Söðull.
  Leiðin yfir í Þorgeirsfjörð liggur yfir Þorgeirsfjarðarháls, öðru nafni Fjarðaháls en í daglegu tali er oftast talað um Hálsana í fleirtölu. Þegar kemur upp á eystri Hálsinn er rétt að stansa og líta til baka og virða fyrir sér útsýnið. Eftir stutta göngu er komið í Brekkudal sem liggur til norðausturs. Þar yst í dalnum var býlið Brekka (1924) og niðri við sjóinn skammt þar norðan við stóð Arnareyri (1934). Þegar kemur upp úr Brekkudal liggur leiðin framhjá Startjörn. Þá er til hægri handar Þorgeirshöfði sem áður fyrr var fullt eins oft nefndur Eyrarhöfði. Uppi á honum er Nykurtjörn og er tilvalið að leggja lykkju á leið sína og ganga upp á höfðann. Til vinstri er fjallið Lútur (663 m). Nafnið mun upphaflega hafa verið í kvenkyni, beygt eins og brúður. Fljótlega fer að halla undan fæti niður að Þönglabakka. Norðan í Lútinni heita Borgir.
  Á Þönglabakka er áningarstaður. Þar er sæluhús Ferðafélagsins Fjörðungs byggt sem skipbrotsmannaskýli af Slysavarnarfélaginu Ægi árið 1955. Þar er snyrtiaðstaða með vatnssalerni. Þarna var kirkjustaður frá fornu fari og þótti afar rýrt brauð. Síðasta athöfn í Þönglabakkakirkju var í febrúar 1944 þegar jarðarför Guðlaugs bónda Jónssonar á Tindriðastöðum var gerð. Kirkjan var þá ónýt orðin og lítið betra veður inni en úti. Skammt fyrir ofan Þönglabakka var kot sem nefnt var Háagerði (1925) og var stundum byggt og stundum ekki.
  Upp af Þorgeirsfirði gengur breiður og grösugur dalur sem heitir Bakkadalur austanmegin en Hólsdalur að vestan. Venjulega er talað um hann í einu lagi sem Hóls- og Bakkadal. Eftir miðjum dal rennur Þorgeirsfjarðará, einnig nefnd Bakkaá en þó oftast Botnsá. Hún á upptök sín í Afvikinu og heitir þar Afvikslækur.
  Fjallgarðurinn að austan heitir Bollafjall. Lútin er í raun ysti hluti þess. Fjallið sem er fyrir botni dalsins að sjá frá Þönglabakka heitir Dýjahnjúkur. Vestan við hann er skarð sem Afvik heitir. Þá kemur Hraunfjall (758), síðan Lágaþóra (784) og fremst að vestan er Háaþóra (738). Hvers vegna hærra fjallið heitir Lágaþóra skýrist ef horft er á þær nöfnur frá hlaðinu á Þönglabakka. Milli Hraunfjalls og Láguþóru eru Hólsskálar. Þær voru þó aldrei nefndar svo meðan búið var á Hóli heldur Ytriskál og Syðriskál. Undir Háuþóru stóð bærinn Botn (1944) og Botnsfjall heitir lægri hluti fjallsins norðan við brattan tind Háuþóru. Rúmum kílómetra innar í dalnum stóð annar bær, Hóll (1929).

  Prentvæn útgáfa

   

    Núna: 1
    Í dag: 23
    Í allt: 137454