Leiðarlýsing / Um Fjörður og Látraströnd /
2. áfangi: Þönglabakki – Keflavík
Fyrsti hluti leiðarinnar liggur vestur eftir sjávarkambinum þar sem sjá má hluta af flaki rússneska birgðaskipsins Júpiters sem strandaði á Botnsfjöru á 15. ágúst 1950. Rétt er að koma við á bæjarrústum að Botni. Þar er haglega hlaðinn brunnur í hlaðvarpanum, gerður með nokkurrri vissu fyrir aldamót 1900. Upp Botnsfjallið eru aflíðandi brekkur og eftir það eru greiðar götur um mela og móa. Leiðin liggur utan í allstórum mel sem heitir Hákarlaþúfa. Fögrudalir heita grónir bollar sem farið er um áður en kemur að Mígindiskambi, löngum melhrygg sem liggur þvert á leiðina. Uppi á honum rennur Mígindislækur og hverfur fram af bakkanum niður í Kúluvíkur. Ef litið er til baka af Mígindiskambi blasir Hákarlaþúfan við. Nafn sitt hefur hún vafalítið hlotið frá eyfirskum sjómönnum sem hafa átt mið þar sem Hákarlaþúfan kom undan Blæjukambinum. Hann er ekki langt þar vestan við Mígindiskambinn og er hærri og brattari. Milli kambanna heitir Rjúpnabolli og nær upp í Háuþóru. Gatan yfir Blæjukamb liggur skammt frá brún Blæjubjargs. Framan í því er Sperrugjá eins og stórt V en hún sést ekki frá brúninni. Hins vegar má með því að fara nokkra metra fram fyrir götuna sjá þar fallegt hengiflug ef menn kæra sig um. Af Blæjukambi er útsýn góð. Í austri sést Melrakkaslétta, í norðri Grímsey. Hnjáfjallið vestan við Blæjudalinn, eða Blæjuna lokar útsýninu til vesturs. Ekki er auðséð héðan hvar farið er yfir Hnjáfjallið en greina má götuna í góðum sjónauka. Niður Blæjukambinn liggur gatan um bratta, stórgrýtta brekku. Eftir miðjum dal ofanverðum er brattur melhryggur. Vestan hans er Blæjuá sem kemur úr Blæjuvatni, spöl innar í dalnum. Nægur tími er á þessari dagleið til að taka á sig krók upp að vatninu, sem er ómaksins vert, ef veður er bjart. Fjallið fyrir dalbotni er Lágaþóra. Brekkan upp Hnjáfjallið er brött en greiðfær þegar búið er að finna götuna. Þær eru reyndar tvær og er betra að velja þá efri. Þegar upp kemur er farið um brattar skriður ofan við Katla sem eru allhrikaleg giljadrög þar norðan í fjallinu. Þar eru bæði Efri-Ketill og Neðri-Ketill. Í Kötlunum eru landamörk jarðanna Botns og Keflavíkur. Þar beint neðan við er vík sem heitir Þrætuvík og bendir til þess að ekki hafi alltaf verið eining um landamörk. Ofan við Katlana fer að halla undan fæti aftur. Á vesturbrún Hnjáfjallsins stendur Messuklettur eins og predikunarstóll yfir Keflavíkurdalnum. Þaðan sést yfir á Gjögurtá þar sem er viti. Ofan við hann rís Gjögurinn, eða Gjögurfjallið eins og farið er að kalla hann, og nær allt inn að Uxaskarði sem sést vel eins og vik í fjallgarðinn. Brekkan niður frá Messuklettinum heitir Sprengibrekka. Í efsta hluta hennar getur verið erfitt að finna góða fótfestu ef leirinn er þurr og harður. Annars liggur gatan á ská suður og niður hlíðina allt niður undir jafnsléttu. Hægt er að stytta sér leið með því að fara út af götunni og beint niður. Keflavíkuráin er nokkuð vatnsmikil og er illvæð niðri við ósinn. En þarna er yfirleitt nógur reki og venjan er að þeir sem fyrstir eru á ferðinni á sumrin búi til göngubrú þar yfir úr góðu rekatré. Sé brúin ekki komin er betra að finna sér álitlegt vað ofar í dalnum. Úti við sjó rétt vestan við ána stendur skáli Ferðafélagsins Fjörðungs skammt frá rústum bæjarins, sem þar stóð við samnefnda vík, og var í byggð til ársins 1905. Skýli þetta byggðu slysavanarfélagskonur á Akureyri árið 1951. Þar er góður áningarstaður, húsaskjól og snyrtiaðstaða með vatnssalerni. Austan við Keflavíkurá er Trjávík. Rétt austan við ána stendur mikilfenglegur klettadrangur í fjöruborðinu. Hann á sér ekkert nafn frá dögum byggðar í Keflavík þar sem þá var hann enn hluti af bakkanum og ekki kominn í ljós. Fyrir fáum árum var honum gefið nafnið Pétur. Það hæfir honum vel, þar sem nafnið merkir klettur. Milli Keflavíkurár og Gjögurtáar eru víkur sem heita Básar. Gjögurtá er trúlega sama nesið og það sem í Landnámu er kallað Reynisnes. Þar voru austurmörk landnáms Helga magra. Frá Keflavík er góð kvöldganga upp í Gjögurskál. Farið er beint í vestur frá skálanum og þá má finna allgóða kindagötu sem liggur skáhallt upp snarbratta lynggróna brekku upp í skálina. Skálin sjálf er allstór en á vesturbarmi hennar er landslag hrikalegt. Þar stendur fremstur, beint ofan við vitann á Gjögurtá, stæðilegur klettastallur sem heitir Prestastóll. Hann hefur líka verið kallaður Prestakolla eða Gjögrakolla. Af kambinum ofan við Prestastól má horfa lóðrétt niður í Gjögravog þar sem stendur skerið Kerling. Sú var tíð að gat var í gegnum Kerlinguna en rétt fyrir aldamótin brotnaði ofan af henni svo hún er gatlaus orðin. Undanfarin ár hefur orðið mikið jarðrask í Gjögurskálinni og stórar fyllur úr henni hrunið niður í Básana. Að sitja í Gjögurskálinni í kyrru veðri þegar kvöldsólin er að setjast er einstakt. Nokkuð er á reiki hvort örnefni tengd Gjögri eru höfð í eintölu eða fleirtölu. Menn tala jöfnum höndum um Gjögurfjall og Gjögrafjall, Gjögurskál og Gjögraskál.
Prentvæn
útgáfa
|