Deprecated: mysql_connect(): The mysql extension is deprecated and will be removed in the future: use mysqli or PDO instead in /storage/content/30/1008530/ferdafjordungur.is/public_html/open.db.php on line 30 Ferðafélagið Fjörðungur
Ferðafélagið Fjörðungur
Fjörðungur | Skálarnir | Leiðarlýsing | Myndir
Leiðarlýsing / Um Fjörður og Látraströnd /

3. áfangi: Keflavík-Látur  Leiðin frá Keflavík að Uxaskarði liggur eftir vel troðnum kindagötum inn eftir vesturhlíðum Keflavíkurdals. Hinum megin dalsins er hægt að virða fyrir sér hina hliðina á tveimur fjöllum úr Þorgeirsfirði; Láguþóru innan við Hnjáfjallið og síðan Hraunfjall. Milli Láguþóru og Hnjáfjalls er Hádegishaus og Hádegisflár utan í honum. Virðulegur tindur fyrir botni dalsins heitir hins vegar ekki neitt. Á leiðinni inn dalinn má sjá að sums staðar greinast göturnar og er þá rétt að taka þá götuna sem liggur ofar í brekkunni. Þannig má komast með auðveldara móti upp í Skipið, stóra skál innst í dalnum. Áður en þangað er komið liggur leiðin um ávala bungu, sem heitir Leiti, og þar innan við um grónar skriður, vaxnar valllendisgróðri og lyngi, sem heita Víðrar. Hægt er að ganga eftir dalbotninum en þá er meira príl upp Fossbrekkurnar til að komast upp í Skipið eða beint upp í Skarðsdalinn. Innan við Skipið hlykkjast gatan upp brattan hól sem Þinghóll heitir. Uppi á honum standa menn augliti til auglitis við Hraunkarl, myndarlegan hnjúk sem gengur austur úr Gjögurfjallinu. Innan við Hraunkarlinn er allstór, stórgrýtt skál sem heitir Skarðsdalur. Upp úr henni liggur gatan upp á Uxaskarðið sem nær hæst í rúmlega 500 m yfir sjávarmál.
  Þegar komið er upp á Uxaskarð sést yfir í Eyjafjörð. Til að fá enn betri yfirsýn er tilvalið að ganga upp á Gjögurfjallið, norðanmegin skarðsins. Þegar komið er upp í um 680 m hæð fæst enn betri yfirsýn yfir svæðið. Þaðan sést vel til allra átta, yfir fjöllin í Fjörðum austur á Melrakkasléttu, inn allan Eyjafjörð og vestur á Siglunes. Þaðan sést og beint niður í Fossdalinn sem leiðin liggur um niður á Látraströndina.
  Niður af Uxaskarðinu er brekkan snarbrött, og liggur venjulega snjór í henni fram eftir sumri. Suður úr Fossdalnum gengur stuttur, gróðursnauður dalur sem nefnist Trölladalur austanmegin en Þjófadalur að vestan. Gatan niður úr Fossdalnum liggur í fyrstu niður með Fossánni en sveigir síðan til suðurs. Þarna er mjög gróðursælt, allt lyngi og kjarri vaxið. Ripplahryggir eru þrír melhryggir, sem liggja upp og niður. Liggur gatan yfir þá og síðan beint niður allbratta brekku yfir gróðurtorfur, sem Ripplahnúfur heita niður á Ripplanefið niður við sjó. Fremst á Ripplanefinu eru Músahólar. Sé horft til norðurs af Ripplanefi sést hvar Fossá kemur ofan af Fossdal og fellur til sjávar í Fossdalsfossi. Utan við Fossá eru skerin Stóri-Geiri og Litli-Geiri. Skálmarbjarg rís þar skammt norðan við. Styttist nú mjög í Látur og liggur leiðin suður með bökkum, fyrst meðfram Lönguvík. Þar standa Traðarsker úti í víkinni en meðfram götunni má á fyrri hluta júlímánaðar sjá stórar breiður hvítra blóma skollabers, plöntu sem óvíða finnst annars staðar á landinu.
  Á leiðinni suður bakkana má víða sjá ummerki mikilla umsvifa í útgerð frá því í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. þótt sjórinn sé kominn vel á veg með að eyða þeim. Hjallabúð stóð rétt utan við Hjallabúðarlæk. Hann kemur úr Lækjardal og Bungum sem eru upp til fjallsins norðan við Látur. Stekkjargrundir eru nær túni. Yst og neðst í túni heitir Tangavöllur en fram af honum er Skriðusker, fram úr Látratanganum þar sem hann nær lengst vestur. Skriðuskerið fer í kaf á stórstraumsflóði. Neðan við Stekkjargrundirnar, stutt utan við bæinn, er Lynghóll og vestur frá honum, niðri við sjóinn eru tóftir Valhallar, þar sem var verstöð frá fornu fari og útgerðarmenn í Höfða notuðu síðast 1900-1920. Norðan við Valhallarlendingu er Valavarða sem er stórt, bryggjulaga sker í fjöruborðinu. Í fjallinu beint fyrir ofan Látur er löng skál eða stallur sem heitir Skip. Hraun heitir stallurinn neðan Skipsins. Látralending er beint framundan Látrabæ. Í lendingunni er Hákonshaus eða Hákarlshaus, blindsker sem varð að róa mjög nálægt enda oft frá því horfið þegar illt var í sjóinn. Stekkjarvík er litlu sunnan við Látrabæ. Þar var þrautalending Látramanna. Stekkjarsker eru fram af miðri víkinni. Þau eru tvö og standa vel úr sjó. Upp fyrir þau var talið að aldrei kæmi nema eitt brot í einu, en brimróður var þar mjög langur og erfiður.
  Á steyptum grunni hússins sem stóð á Látrum til 1942 var byggt skipbrotsmannaskýli. Það var rifið 2007 og í staðinn reist bjálkahús í eigu Ferðafélagsins Fjörðungs.
  Á Látrum var verstöð frá fornu fari. Ekki nóg með að bændur þar hafi gert út heldur áttu Eyfirðingar jafnan verbúðir þar. Þaðan voru á síðustu öld gerð út fræg hákarlaskip sem þeir áttu Látrafeðgar, Jónas Jónsson og Tryggvi Jónasson, afburðasjómenn en drykkfelldir nokkuð. Hjá þeim ólst upp Sæmundur Sæmundsson sem varð annálaður hákarlaskipstjóri og Guðmundur G. Hagalín skrifaði um bókina Virkir dagar.
  Mest umsvif í útgerð munu hafa verið á Látrum á árunum 1900-1920 þegar Höfðamenn og Kljáströndungar ráku þar stórútgerð. Þeir reru þaðan á þremur til fimm mótorbátum frá því í maí og fram í september og áttu þar tvær verbúðir. Þeir byggðu upp gamla verbúð, Valhöll, og reistu aðra sem þeir nefndu Hliðskjálf.
  Frægasta persóna sem búið hefur á Látrum mun án efa vera Björg Einarsdóttir, Látra-Björg (1713-1785) og landskunn er fyrir magnaðan kveðskap.
  Jafnan var vel hýst á Látrum. Síðasta hús þar var reisulegt járnklætt timburhús á tveimur hæðum og steyptum kjallara. Rafstöð var sett þar í bæjarlækinn 1934 og hús öll raflýst eftir það. Skammt norðan við bæinn sjást hlaðnir veggir mikilla fjárhúsa með steyptu baðkeri. Á Látrum var búið óslitið til 1938. Þá stóð jörðin í eyði í tvö ár en 1940 fluttu þangað tvær fjölskyldur og voru í tvö ár. Síðan 1942 hafa Látur verið í eyði.

  Prentvæn útgáfa

   

    Núna: 1
    Í dag: 23
    Í allt: 137454