Leiðarlýsing / Um Fjörður og Látraströnd /
4. áfangi: Látur – Grenivík
Leiðin frá Látrum liggur fyrir ofan Látrakleifar, hrikalega sjávarhamra um þrjá kílómetra að lengd. Fyrsta spölinn frá bænum, eftir að sleppir túninu, eru mýrarsund en síðan er allt þurrt undir fæti, harðvelli, melar og gil, allt meira og minna lyngi vaxið. Uppi í fjallinu er kambur sem heitir Einbúi (743 m) á milli Einbúaskála. Úr þeim renna Einbúalækir. Í Ytri-Einbúalæk er Stórifoss sem steypist fram af Látrakleifum og sést vel frá Látrum. Niður undan Einbúa eru lautir sem heita Grænur. Þar var áður beitt kvíaám Látrabænda. Fram undan Látrakleifum, miðja vegu milli Grímsness og Látra er Hálfnunarsker. Þar var talið að leið væri hálfnuð milli Grímsness og Látra. Nokkru sunnan við Syðri-Einbúalæk er stutt en brött brekka sem heitir Uppganga. Þaðan er stutt að Eilífsá. Þær eru tvær og koma af Eilífsárdal. Sú syðri er öllu vatnsmeiri. Í henni er tignarlegur foss í hrikalegu gili ekki langt neðan við vaðið. Leiðin yfir Eilífsárnar er í um 350 m hæð. Sunnan við Eilífsár liggur gatan niður Háubrekku sem er alllöng og brött. Neðst í Háubrekkunni liggur gatan suður eftir brún brattrar brekku sem öll er skógi og kjarri vaxin. Má þar meðal annars sjá myndarlegar reynihríslur. Neðan við þessa brekku er Ódrykkjutjörn. Frá henni rennur Ódrykkjulækur sem steypist fram af sjávarhömrum í Ódrykkjufossi. Litlu sunnar, fram af Hrafnhólanefi, mara í hálfu kafi stutt frá landi sker sem heita Engelsku flúðir. Í landi eru Engelsku víkur og ofan við þær Engelsku mýrar. Munnmæli herma að enskt skip hafi strandað á flúðunum, þeir engelsku komist í land og annað hvort drepið hver annan í óspektum sín á milli eða verið drepnir af heimamönnum. Líkum þeirra hafi síðan verið varpað í tjörnina og vatnið í henni orðið ódrykkjarhæft af þeim sökum. Frá Ódrykkjutjörn liggur gatan enn um stund gegnum kjarr og lyng en þegar kemur niður á Hrafnhóla taka við berir melar. Brátt fer að sjást í rústir Sæness sem stendur á Grímsnestanga sunnan við Lönguvík þar sem Látraströndungar veiddu 92 höfrunga í lítilli vök 5.-7. jan. 1918. Sænes var þurrabúð sem búið var í 1903-1925. Frá Sænesi eru nokkur hundruð metrar upp að bæjarrústum á Grímsnesi. Síðustu ábúendur fluttu þaðan 1938 eftir nær hálfrar aldar búskap. Á Grímsnesi voru hús úr timbri og torfi, að hluta til á steyptum kjallara. Upp af Grímsnesbænum er Fossskarð. Þaðan kemur Bjarndýrslækur niður með Bjarndýrshól skammt utan við Grímsnesbæinn. Frá Grímsnesi liggur jeppafær ýtuslóði allt inn í Svínárnes. Það er um 7 km leið, álíka langt og út í Látur. Tæpan kílómetra sunnan við Grímsnes er Refsá, sem skiptir löndum milli Skers og Grímsness og endar í Refsárbás niðri við sjó, rétt utan við Halldórsvík. Um Refsárskarð var gönguleið milli Fjarða og Látrastrandar. Sunnan við Refsárskarð rís Skersgnípa (1081). Djúpagil, Kjúkugil og Hvammsgil eru þar neðan við. Sunnan við Hvammsgil er grösugur hvammur er heitir Skershvammur. Sunnan við hann er Ausulækur. Hann kemur úr skál uppi í fjallinu sem heitir Ausa og fellur niður í bás niðri við sjó sem einnig heitir Ausa. Þá fer að styttast að næsta bæ sem er Sker (1932). Snjóflóð hljóp á fjárhúsin þar 1926 og drap mestallan fjárstofninn. Þá flutti allt fólk af bænum. Aftur flutti fólk í Sker 1930 en stóð ekki við nema tvö ár og Sker fór endanlega í eyði 1932. Út og fram af bænum á Skeri er klettastallur, laus frá landi sem heitir Mælir eða Skersmælir. Þar ofan við er nef, grasi gróið. Heitir það Álagablettur og þar má aldrei slá. Nokkur hundruð metrum sunnan við Sker var bærinn Miðhús, kot sem var í eigu Hólastóls og fór endanlega í eyði 1813. Þann 20. nóv. 1772 féll snjóflóð á bæinn. Af níu heimilismönnum björguðust fimm, þar af einn eftir 20 dægur og er ekki vitað til að nokkur annar hafi lifað svo lengi í snjóflóði. Upp úr egginni beint fyrir ofan Miðhús stendur tindurinn Þerna, 1081 m hár. Göngumenn geta valið um tvær leiðir frá Skeri. Önnur leiðin liggur eftir ýtuslóðanum sem stefnir upp til fjalls til að komast upp fyrir mýrlendið sem er framundan. Hin leiðin liggur niður á bakkann sunnan við Miðhús eftir óljósum götum að Steindyrum, rúmlega eins kílómetra leið. Á Steindyrum var síðast búið 1930 og er hægt að marka stærð hússins allvel af rústum hlaðins kjallara sem eftir standa. Uppi í fjallinu er Steindyraskál utan við Svínárhnjúk. Neðan við hana er Steindyrahryggur. Gilið sunnan við bæinn á Steindyrum heitir Bæjargil. Sitt hvorum megin við það standa Torfhólar. Mávamelur er rétt sunnan við Marklæk niðri undir bakka en Marklækur skiptir löndum milli Svínárness og Steindyra. Milli þessara bæja eru um 3 km. Svæðið frá Marklæk að Svínárnesi heitir Mark. Svínárnes var á öldum áður í eigu Hólastóls og þótti kostajörð. Þar gátu menn búið stórt og haft góð nyt af sjávarfangi. Síðustu ábúendur þar fluttu til Hríseyjar 1959. Í Svínárneslandi stóðu þrjú hús, skamman tíma hvert. Kofi sem var yst í Svínárnestúni hét Borgugerði og var kenndur við konu sem bjó þar ein mestalla ævi sína. Nóatún hét hús þar niðri á bakkanum, byggt úr verbúð sem rifin var á Botni í Þorgeirsfirði 1917. Þar var síðast búið 1927. Nokkrum árum seinna eða 1934 var byggt þar hús sem nefnt var Borgarhóll. Þar var búið til 1942. Bátalending Svínárnesmanna var nokkuð sérstök. Hún var í Svínárnesvogi, þröngum, djúpum klettavogi sunnan við Svínárnesklappir. Skammt sunnan við Svínárnes kemur Svíná úr Svínárdal milli Svínárhnjúks (1083 m) og Hringsdalsfjalls. Efst í Svínárdal, sunnan Svínár, er Rauðaskál. Út og upp af henni er Rauðanöf, klettadrangur sem gengur norður í Svínárdalinn. Efst uppi á Svínárdal, norðan Kaldbaks (1173 m) heitir Eiríksskarð. Það dregur nafn sitt af vinnumanni á Svínárnesi, sem kvöld eitt, þegar allir voru sofnaðir, brá sér austur yfir skarðið, hljóp út að Kussungsstöðum í Hvalvatnsfirði, barnaði þar vinnukonu og var kominn aftur heim í rúm sitt áður en nokkur vaknaði. Vegurinn frá Svínárnesi til Grenivíkur, (um 7 km) er allvel fær flestum bílum. Syðst í Svínárneslandi, neðan við veg, stóð bærinn Jaðar. Þar var búið á árunum 1903-1957. Beint fram undan bænum á Jaðri er Skinnbuxnavík. Beggja vegna hennar standa sker, Folald að norðan og Meri að sunnan á landamerkjum Svínárness og Hringsdals. Bærinn Hringsdalur (1932) stóð í samnefndum dal hálfum öðrum kílómetra sunnan við Jaðar. Þar var einnig Litli-Hringsdalur (1917). Hringsdalshæðir eru ofan við Hringsdal. Þar framan í er klettastallur sem heitir Einbúi. Út og upp af Hringsdalsbæ er melhryggur sem heitir Kvíaból. Sunnarlega í Hringsdalstúni eru tvær gilskorur. Milli þeirra er brattur hryggur sem heitir Járnhryggur. Þótti hann slæmur undir ljáinn í þurrkum. Framan við Hringsdalsbjargið var skerið Hestur, allhár klettadrangur sem hrundi í jarðskjálftanum 1934. Vegurinn liggur upp Dalsbrekku. Þar fyrir ofan er rétt ofan við veginn rauður melur sem heitir Geldingartóftarhóll og er neðan við Lýsishól. Ofan við Lýsishólinn er Lýsistjörn, nyrst í Torfdal. Úr henni rennur Kleifarlækur sem skiptir löndum milli Hjalla og Hringsdals og fellur til sjávar rétt sunnan við Hellisnef. Milli þess og Hringsdalsbjargs heitir Gimbrarsandur. Þegar kemur suður á Hjallahæð sjást tveir bæir. Uppi í brekkunni er Hjalli. Síðasti ábúandi þar lést 1985 og hafði þá búið þar einn um nokkurt skeið. En leiðin liggur um hlað á Finnastöðum, síðasta bæ í byggð á Látraströnd. Þaðan var áður fyrr útræði mikið. Fram yfir miðja 20. öld bjuggu þar tvær stórar fjölskyldur og var stundum á fjórða tug manna í heimili. Finnastaða- og Hjallaland er auðugt af skemmtilegum örnefnum. Má þar nefna Góðhaga, Flagðalág, Víðra, Fylgsnalæk, Svepphól og Fletabrekkur. Framan við sjávarbakkann í Hjallavogi er Járnklettur, sem kemur aðeins upp úr sjó við fjöru. Ekki langt þar utan við eru tvö sker sem heita Eistu en sumir kalla Systur. Rétt sunnan við Finnastaði rennur Finnastaðaá. Þar sveigir vegurinn fram fyrir Stórhól sem er nyrstur Finnastaðahóla. Ofan við hann er dalur sem snýr út og suður og nefnist Dalur eða Finnastaðadalur. Í honum er Finnastaðatjörn. Nú styttist að endimörkum Látrastrandar. Þau teljast við Grenjá sem kemur af Grenjárdal sunnan Kaldbaks og fellur til sjávar skamm norðan Grenivíkur. Samt er enn ógetið þriggja bæja. Rétt neðan við veginn sunnan við Finnastaðahólana stendur myndarlegt hús sem heitir Melar. Þar var búið frá 1919-1988 en er nú notað sem sumarhús. Litlu sunnar, alveg niðri á bakka stóð býlið Holt sem fór í eyði 1952 og um 300 metrum sunnar, rétt utan við Grenjána má enn sjá merki um Árbakka þar sem síðast var búið 1960. Ferðinni er lokið. Við höfum lagt að baki nær 70 km leið og farið um byggðir þar sem bjó á þriðja hundrað manns þegar flest var en nú búa tvær manneskjur. Bæirnir voru 31 ef talinn er með kofinn hennar Borgu á Svínárnesi.
Prentvæn
útgáfa
|